Ferill 388. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 659  —  388. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um brunatryggingar, nr. 48/1994, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)

1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Húseigendum er skylt að vátryggja gegn eldsvoða allar húseignir. Húseignir samkvæmt lögum þessum eru hvers konar byggingar sem ætlaðar eru til íbúðar, atvinnustarfsemi, geymslu eða annarra afnota.
    Hús í smíðum er eigendum einnig skylt að vátryggja á smíðatímanum. Fer um vátrygging­arfjárhæð þeirra á hverjum tíma eftir samkomulagi milli eiganda og vátryggingafélags.
    Vátryggingarskyldar húseignir skv. 1. mgr. er skylt að meta eigi síðar en fjórum vikum eftir að byggingu þeirra lauk eða þær hafa verið teknar í notkun. Eigandi ber ábyrgð á því að tilkynna vátryggingafélagi um lok byggingar eða notkun húseignar og óska eftir mati.
    Vátryggingafélag skal ekki taka gilda uppsögn á brunatryggingu skv. 1. og 2. mgr. nema uppsögn fylgi staðfesting á að húseigandi hafi stofnað til nýrrar brunatryggingar hjá öðru vátryggingafélagi. Við eigendaskipti skal viðkomandi vátryggingafélag ekki taka gilda upp­sögn nema henni fylgi staðfesting á að nýr eigandi hafi stofnað til brunatryggingar.

2. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Vátryggingarfjárhæð húseignar skv. 1. mgr. 1. gr. skal nema fullu verði eignarinnar eftir virðingu. Fasteignamat ríkisins annast virðingu þeirrar húseignar samkvæmt matskerfi og verklagsreglum stofnunarinnar. Heiti þeirrar gerðar er brunabótamat. Er markmið matsins að finna vátryggingarverðmæti húseignarinnar á þeim tíma er virðing fer fram. Skal matið taka til þeirra efnislegu verðmæta húseignarinnar sem eyðilagst geta af eldi og miðast við byggingarkostnað að teknu tilliti til aldurs, slits, viðhalds og ástands eignar að öðru leyti. Matið skal skrá í fasteignaskrá stofnunarinnar þar sem því skal viðhaldið.
    Fasteignamat ríkisins getur endurmetið skyldutryggðar húseignir þegar stofnunin sér ástæðu til. Skal húseiganda tilkynnt um fyrirhugaða breytingu á mati. Vilji húseigandi ekki una breyttu mati samkvæmt þessari málsgrein skal hann tilkynna stofnuninni það með sannanlegum hætti innan fjögurra vikna frá dagsetningu tilkynningar um matið.
    Brunabótamat nýrrar húseignar og endurmat skv. 2. mgr. skal vera húseiganda að kostn­aðarlausu.
    Húseiganda er ætíð heimilt á sinn kostnað að óska eftir því að Fasteignamat ríkisins endurmeti húseign hans. Skylt er húseiganda að óska nýs brunabótamats á húseign ef ætla má að verðmæti eignarinnar hafi aukist vegna endurbyggingar eða endurbóta.
    Sé ágreiningur á milli vátryggingafélags og húseiganda um matsfjárhæð getur hvor aðili um sig óskað endurmats á sinn kostnað.
    Ef húseigandi eða vátryggingafélag vill ekki una mati Fasteignamats ríkisins er heimilt að vísa ágreiningi þar um til yfirfasteignamatsnefndar, sbr. 6. gr.
    Fasteignamati ríkisins er heimilt að lækka vátryggingarfjárhæðir húseigna (brunabótamat) sem eru í lélegu ástandi og ekki í notkun frá því sem brunabótamat þeirra hefði ella orðið skv. 1. mgr. Heimild þessi verður því aðeins nýtt að fyrir liggi staðfesting sveitarstjórnar á ástandi eignar og notkun og að hún geri ekki athugasemdir við að mat verði lækkað. Fast­eignamat ríkisins tilkynnir eiganda húseignar, vátryggingafélagi og veðhöfum, ef einhverjir eru, um breytingu á vátryggingarfjárhæð samkvæmt þessari málsgrein.
    Séu húseignir á eyðijörðum nýttar sem sumarhús eða til annarrar dægradvalar fer um brunabótamat slíkra eigna sem væru þær sumarbústaðir.
    Ef brunabótamat byggist á beinni skoðun á húseign skal gefa húseiganda, eða fulltrúa hans, kost á því að vera viðstaddur.
    Fasteignamati ríkisins er heimilt að reikna brunabótamat án skoðunar. Skal útreikningur þessi gerður á grundvelli upplýsinga sem fyrir liggja í fasteignaskrám stofnunarinnar og í öðrum þeim gögnum sem hún kann að hafa yfir að ráða. Áður en mat samkvæmt þessari málsgrein tekur gildi skal húseiganda gefinn kostur á því að gera athugasemdir við matið. Hafi hann eigi komið athugasemdum sínum sannanlega á framfæri við Fasteignamat ríkisins innan fjögurra vikna frá dagsetningu tilkynningar um matið skal litið svo á að hann sé því samþykkur.
    Vátryggingarfjárhæð breytist til samræmis við breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar hinna ýmsu tegunda húseigna.
    Í reglugerð skal kveða nánar á um tilhögun brunabótamats samkvæmt þessari grein.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Lokamálsliður 2. mgr. fellur brott.
     b.      Lokamálsliður 3. mgr. orðast svo: Ef sveitarstjórn eða eigandi telja brunabótamatsverð ekki rétt getur hvor um sig krafist endurmats Fasteignamats ríkisins og skal þá miða greiðslu við endurmatsverðið.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ágreiningi um bótafjárhæð skv. 2. mgr. eða um endurmatsverð skv. 3. mgr. er heim­ilt að skjóta til gerðardóms sem ráðherra vátryggingamála setur nánari ákvæði um í reglugerð. Kostnað við úrskurð ber sá er gerð gengur á móti.

4. gr.

    4. gr. laganna verður 7. gr.

5. gr.

    4. gr. a laganna verður 4. gr.

6. gr.

    5. gr. laganna verður 8. gr.

7. gr.

    Í stað núgildandi 5. gr. laganna kemur ný 5. gr., svohljóðandi:
    Ágreiningi um brunabótamat má skjóta til úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar. Fyrir kostnað við úrskurð nefndarinnar skal greiða samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra vátrygginga­mála setur. Kostnað við úrskurð ber sá sem gerð gengur á móti.


8. gr.

    6. gr. laganna verður 9. gr.


9. gr.

    Í stað núgildandi 6. gr. laganna kemur ný 6. gr., svohljóðandi:
    Til þess að standa straum af kostnaði Fasteignamats ríkisins við að uppfæra og halda skrár yfir brunabótamat húseigna skulu húseigendur greiða sérstakt gjald til Fasteignamats ríkisins, umsýslugjald. Gjald þetta skal nema 0,025 ‰ (prómillum) af brunabótamati hverrar húseignar og skal vátryggingafélag innheimta gjaldið samhliða innheimtu brunatryggingarið­gjalda og skila umsýslugjaldi til Fasteignamats ríkisins eigi síðar en 45 dögum eftir gjald­daga.

10. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða I og II í lögunum falla brott.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Að undanförnu hefur orðið vart gagnrýni á lög um brunatryggingar og framkvæmd þeirra. Einkum hefur þeirrar gagnrýni orðið vart hjá Bændasamtökum Íslands. Telja þau að fram­kvæmd þeirra komi sérstaklega hart niður á bændum þar sem nokkuð kveði að van- eða ónýttum húseignum á jörðum vegna breyttra búskaparhátta og að dæmi séu um að húseignir til sveita hafi að undanförnu verið endurmetnar með tilheyrandi hækkunum brunatryggingar­iðgjalda og þeirra skatta og gjalda sem mið taka af brunabótamati.
    Af þessu tilefni og einnig vegna ábendinga um að huga þurfi að endurskoðun gildandi ákvæða um tilhögun brunabótamats skipaði viðskiptaráðherra nefnd til þess að gera tillögur um endurskoðun á lögunum. Í nefndina voru skipaðir Ólafur Hilmar Sverrisson, bæjarstjóri í Stykkishólmi, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sigmar Ármannsson fram­kvæmdastjóri, tilnefndur af Sambandi íslenskra tryggingafélaga, og Kjartan Gunnarsson, deildarstjóri í viðskiptaráðuneytinu, sem skipaður var formaður nefndarinnar.
    Vegna gagnrýni Bændasamtakanna ákvað nefndin að rita hagsmunaaðilum og tilteknum opinberum aðilum og óska eftir viðbrögðum þeirra við þeirri hugmynd að breyta eða afnema skyldu húseigenda til þess að hafa húseignir brunatryggðar. Nánar er hér um að ræða tvær hugmyndir. Annars vegar að aðilum í atvinnurekstri verði það í sjálfsvald sett hvort þeir hafi brunatryggðar þær húseignir í eigu þeirra sem nýttar eru í atvinnurekstrinum. Hins vegar að eigendur atvinnurekstrarhúsnæðis geti óskað eftir undanþágu frá brunatryggingarskyldu og að undanþágan verði háð samþykki viðkomandi sveitarstjórnar og veðhafa, ef einhverjir eru.
    Rétt er að fram komi að hugsanlegar breytingar á skyldutryggingu húseigna hafa áhrif á fleira en iðgjöld brunatrygginga og bætur vegna bruna. Þau iðgjöld, gjöld og skattar sem reiknuð eru sem hlutfall af vátryggingarfjárhæðum og vátryggingafélögunum er gert að inn­heimta eru brunavarnagjald, umsýslugjald, iðgjöld viðlagatryggingar, svo og gjald til Ofanflóðasjóðs. Raunar vega þessir skattar og gjöld til opinberra aðila mun þyngra en sjálft brunatryggingariðgjaldið. Má reikna með að þessi viðbótargjöld geti numið um 80–85% af meðalinnheimtu á því gjaldi sem lagt er á meðalhúseign. Afnám skyldubrunatryggingar mundi því þýða tekjutap bæði fyrir Viðlagatryggingu Íslands og Ofanflóðasjóð nema til kæmu nýir tekjustofnar.
    Þeir hagsmunaaðilar og opinberir aðilar sem gerðu nefndinni grein fyrir áliti sínu á fram­angreindum hugmyndum voru Vátryggingaeftirlitið, Samtök iðnaðarins, Samband íslenskra viðskiptabanka, Bændasamtök Íslands, Viðlagatrygging Íslands, Vinnumálasambandið, Sam­band íslenskra sparisjóða, Samband íslenskra tryggingafélaga, umhverfisráðuneytið, Fast­eignamat ríkisins, Brunamálastofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga.
    Aðeins Bændasamtök Íslands lýstu sig fylgjandi því að aðilum í atvinnurekstri ætti að vera það í sjálfsvald sett hvort þeir brunatryggðu húseignir sem notaðar eru í atvinnurekstri. Aðrir vildu viðhalda óbreyttu fyrirkomulagi.
    Eins og fram kemur í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins gerir það engu síður ráð fyrir þeim möguleika að lækka megi brunabótamat tiltekinna húseigna umfram það sem matið hefði ella orðið að uppfylltum skilyrðum sem nánar er lýst í frumvarpinu. Að mati frumvarpshöfunda verður ekki með sanngirni litið fram hjá þeim breytingum, bæði vegna samdráttar í hefðbundum landbúnaði og breyttra búhátta sem orðið hafa síðustu ár og einkum snerta bændur.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Eina efnislega breytingin frá gildandi ákvæðum er að nú er gerð tilraun til þess að skil­greina hvað sé húseign. Ágreinings hefur orðið vart um hvenær bygging geti talist vátrygg­ingarskyld húseign.

Um 2. gr.

    Til þess að tryggja einsleitni við mat á húseignum, hvort sem er við fasteignamat eða við brunabótamat, er talið nauðsynlegt að einn aðili annist matsgerðina. Því er lagt til í frum­varpinu að Fasteignamat ríkisins sjái eitt um þessar matsgerðir. Hjá stofnuninni eru fyrir hendi þær upplýsingar, verklagsreglur og sérþekking sem nauðsynlegar eru til þess að tryggja einsleitni og að mat verði unnið samkvæmt faglegum kröfum. Í þessu sambandi er vert að vekja sérstaka athygli á að bæði brunabótamat og fasteignamat eru grundvöllur skatt­lagningar. Auk þeirra skatta sem áður hefur verið gerð grein fyrir og reiknast af brunabóta­mati má hér nefna skipulagsgjald. Sömu matsmenn meta eignir bæði til fasteignamats og brunabótamats og almennt er miðað við að samtímis sé unnið að þeim. Hefur það og orðið svo í reynd að Fasteignamat ríkisins hefur metið langflestar eignir til brunabótamats eftir gildistöku laga nr. 48/1994, en ekki dómkvaddir matsmenn.
    Grein þessi gerir einnig ráð fyrir því að stofnuninni sé heimilt að meta húseignir á grund­velli upplýsinga sem fyrir hendi eru. Ekki þurfi að meta á grundvelli skoðunar á staðnum ef að mati stofnunarinnar liggja fyrir fullnægjandi upplýsingar. Á þetta við bæði um fyrsta mat og endurmat.
    Nýmæli er að Fasteignamati ríkisins er heimilt að lækka brunabótamat frá því sem það ella hefði orðið ef húseign er í mjög lélegu ástandi eða hefur verið tekin úr notkun. Er ákvæði þetta einkum tilkomið vegna gagnrýni Bændasamtaka Íslands á að ekki skuli hægt samkvæmt gildandi lögum að taka tillit til búháttarbreytinga og samdráttar í hefðbundnum landbúnaði við mat á útihúsum á jörðum. Ekki þykir rétt að einskorða möguleika til sveigjanlegs mats við bújarðir heldur sé miðað við að heimild þessi sé almenn. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að heimildin verði ekki nýtt nema að fengnu samþykki sveitarstjórnar þar sem viðkomandi húseign er staðsett. Fasteignamati ríkisins er einnig gert að tilkynna vátryggingafélagi sem hefur verið með viðkomandi húseign í brunatryggingu og veðhöfum um lækkun brunabóta­matsins. Ekki er gert ráð fyrir að afla þurfi samþykkis félags eða veðhafa en þeim er í sjálfs­vald sett að meta hvort lækkun brunabótamats gefur tilefni til aðgerða af þeirra hálfu.
    Þá er rétt að benda á tvennt til viðbótar. Í gildandi lögum er ákvæði um umsýslugjald að finna í 2. gr. Í frumvarpi þessu er lagt til að ákvæði um gjaldið verði í sérstakri grein. Þá er í frumvarpinu tekinn af allur vafi um hvernig meta skuli til brunabótamats húseignir á eyði­jörðum sem nýttar eru sem sumarbústaðir.

Um 3. gr.

    Efnislega lýtur breyting á greininni að því að skilgreina hvert skjóta megi ágreiningi sem upp kann að rísa, annars vegar um bótafjárhæð, í þeim tilvikum þegar ekki er um endurbygg­ingu húseignar í upprunalegt horf að ræða, og hins vegar þegar sveitarstjórn leysir til sín húseign vegna eldhættu eða af skipulagsástæðum.
    Ágreiningi um bótafjárhæð í öðrum tilvikum en þeim sem fjallað er um í 2. og 3. mgr. ger­ir frumvarpið ráð fyrir að vísað sé til dómstóla.

Um 4.–6. gr.

    Ekki er verið að gera tillögu um efnisbreytingu, en lagt er til að 4. gr., 4. gr. a. og 5. gr. núgildandi laga fái ný greinanúmer.

Um 7. gr.

    Óvissa er um túlkun ákvæða gildandi laga um yfirmat. Sú leið hefur verið farin að í 11. gr. reglugerðar um lögboðna brunatryggingu húseigna er kveðið á um að skjóta megi málum til gerðardóms rísi ágreiningur um brunabótamat eða um bótafjárhæð.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að yfirfasteignamatsnefnd taki til úrskurðar ágreining sem upp kann að koma um brunabótamat. Slíkt horfir til einföldunar og er til þess fallið að stuðla að nauðsynlegri samræmingu við framkvæmd laganna.

Um 8. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 9. gr.

    Núgildandi ákvæði um umsýslugjald er að finna í 2. gr. laganna. Frumvarpið gerir ráð fyr­ir því að ákvæði um það séu sett í sérstaka grein, 6. gr. Efnislega er ekki verið að breyta ákvæðunum.

Um 10. og 11. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.




Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um brunatryggingar,
nr. 48/1994, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að veitt verði heimild til að lækka vátryggingarfjárhæðir húseigna (brunabótamat) sem eru í lélegu ástandi og ekki í notkun með samþykki sveitarstjórnar enda staðfesti hún ástand eignar og notkun. Af vátryggingarfjárhæð húseigna er reiknað brunavarnagjald, umsýslugjald og iðgjöld viðlagatryggingar, svo og gjald til Ofanflóðasjóðs. Lækkun á vátryggingarfjárhæð húseigna kemur til með að draga úr lög­bundnum tekjum viðkomandi stofnana en hefur ekki bein áhrif á afkomu ríkissjóðs. Erfitt er að meta áhrif frumvarpsins á heildarlækkun vátryggingarfjárhæðar húseigna en þó má ætla að hún verði óveruleg. Lækkun á vátryggingarverðmæti húseigna sem nemur t.d. 0,10% leið­ir til um 1,1 m.kr. lægri tekna viðkomandi stofnana í heild sem þeim er ekki bætt samkvæmt frumvarpinu.
    Með frumvarpinu er yfirfasteignamatsnefnd falið að úrskurða í ágreiningi um brunabóta­mat og skal sá greiða sem gerð gengur á móti. Fyrir kostnað vegna úrskurðar nefndarinnar skal greiða samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra vátryggingamála setur. Fasteignamati ríkisins er enn fremur gert að tilkynna eiganda húseignar, vátryggingafélagi og veðhöfum, ef ein­hverjir eru, um breytingu á vátryggingarfjárhæð húseignar samkvæmt ákvæðum frumvarps­ins. Ætla má að frumvarpið leiði fyrst um sinn til fjölgunar matsgerða og ef gert er ráð fyrir óbreyttu hlutfalli mála sem gengur á móti Fasteignamati leiðir það tímabundið til aukinna útgjalda. Hins vegar eru nýmæli í frumvarpinu sem heimila Fasteignamati ríkisins að meta fasteignir án skoðunar á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga og má meta þetta ákvæði til nokkurrar hagræðingar. Verði frumvarpið óbreytt að lögum má ætla að árleg útgjöld Fast­eignamats ríkisins aukist í fyrstu um 2,5 m.kr. vegna framangreindra atriða en lækki síðan í um 0,5 m.kr.